top of page

 

Allt hefur byrjun, og allt hefur enda. Manneskjur fæðast og deyja, stjörnur mótast úr gasskýi og springa síðan, og alheimurinn okkar fæddist í Miklahvelli og… einhvertímann, mun hann enda, en við vitum ekki hvernig. Í þessari grein ætla ég að útskýra hvernig alheimurinn mun enda á þrjá mismunandi hætti, og ég ætla að byrja á því að segja frá þeim líklegasta.

 

Númer eitt  “The big freeze“

Það væri rosalega leiðinlegt ef að alheimurinn okkar myndi enda svona, ekkert spennandi… bara þunglyndislegt. Allt frá því að alheimurinn okkar fæddist hefur hann verið að stækka, og hann mun stækka þangað til að hann endar. Kenningin um “The big freeze” segir að alheimurinn muni halda áfram að stækka að eilífu, löngu eftir að stjörnurnar hafa dáið og stjörnuþokurnar hafa sundrast. Hann mun bara halda áfram að stækka og stækka að eilífu. Reynið að ímynda ykkur alheim sem hefur engar plánetur, engar stjörnur, engar stjörnuþokur, enga liti, og engin svarthol. Það væri ekki mjög gaman að búa í þannig alheimi.

 

Númer tvö “the big crunch”

Núna verður þetta aðeins meira spennandi (spoiler: ekki jafn spennandi og þriðji möguleikinn). Það er mjög mikið efni í alheiminum, og þetta efni býr til þyngdarafl. Samkvæmt þessari kenningu mun alheimurinn halda áfram að stækka þangað til að þyngdaraflið í alheiminum stöðvar stækkunina. Síðan fellur hann aftur saman, hraðar og hraðar, með miklum látum (eiginlega eins og öfugur miklihvellur) í ofurþétta einstæðu. Ofurþétt einstæða er mjög flókin en ímyndaðu þér allt sem til er í alheiminum þjappað saman í óendanlega lítinn punkt. En það eru góðar fréttir. Eftir allt þetta gæti alheimurinn fæðst aftur út frá þessari einstæðu (nákvæmlega eins og í miklahvelli). Þá gæti þessi ferill endurtekið sig að eilífu og það eina sem gerist er að alheimurinn endurnýjar sig á nokkur hundruð milljarða fresti. En þetta er ólíklegasta útkoman.

 

Númer þrjú “the big rip”

Núna verða hlutirnir spennandi (og pínu scary). Af þessum þremur kenningum er þessi “rokkstjarnan” (lang mest spennandi). Þið munið væntanlega eftir því að ég talaði um að alheimurinn sé að stækka?... Gott! Það er samt eitt í viðbót. Hann er ekki bara að stækka, hann stækkar alltaf hraðar og hraðar (eins og bíll sem eykur hraðann). Og ef kenningin hefur rétt fyrir sér mun hraðinn á stækkuninni halda áfram að aukast… að eilífu. Og ef það gerist þá gæti hann stækkað svo hratt að tímarúmið, hluturinn sem við og allt er í, mun rifna í sundur og, bókstaflega, hætta að vera til. Það væri engin smá heljarinnar flugeldasýning. Þú gætir meira að segja séð það gerast. Ef þú værir að horfa á stjörnurnar út í sveit, þar sem þær eru margar, myndir þú sjá eina í einu hverfa, eins og það væri verið að slökkva á þeim. Síðan myndu pláneturnar okkar hverfa, sólin, tunglið og síðan BÚMM!!! Svart… Ekkert… Í hinum tveimur útkomunum (“big crunch” og “big freeze”) þá endaði alheimurinn tæknilega séð ekki. Þá var hann enþá til í einhverju formi. En ef þetta gerist þá mun hann enda fyrir fullt og allt. Allt er í tímarúminu og ef það er ekkert tímarúm er enginn staður fyrir öreindir, stjörnur, ljóseindir, plánetur, eða okkur. Þá væri ekkert. Reynið að ímynda ykkur það… neibb, þið getið það ekki.

 

Það er samt möguleiki að þetta væri ekki hin eini sanni endir. Ný kenning hefur komið fram á seinustu árum, og það er kenningin um fjölheiminn. Sú kenning segir að okkar alheimur sé ekki sá eini. Hún segir að það séu óendanlega margir alheimar, allir frábrugðnir okkar. Þannig jafnvel þótt að alheimurinn okkar endi, þá verða óendanlega margir í viðbót fyrir líf að þrífast í.

-       Ísleifur Arnórsson

hvernig gæti alheimurinn endað? (þunglyndið færist nær)

300px-HubbleDeepField.800px.jpg
bottom of page